Rangárljós

Á fundi byggðarráðs Rangárþings ytra 27. júní 2016 var eftirfarandi bókun samþykkt vegna fjarskiptamála í Rangárþingi ytra

Sveitarstjórn Rangárþings ytra er meðvituð um þá miklu þörf sem er á því í nútíma samfélagi að hafa aðgang að háhraða nettengingu. Slík eftirspurn eykst stöðugt og telst nú þegar nauðsyn í daglegu lífi einstaklinga og í daglegum rekstri fyrirtækja. Sveitarstjórn Rangárþings ytra telur að skortur á háhraða nettengingu í sveitarfélaginu hafi neikvæð áhrif á framþróun samfélagsins.

Engin fjarskiptafélög hafa sýnt því áhuga að koma að uppbyggingu ljósleiðarakerfis í sveitarfélaginu, að undanskyldu svæðinu þar sem þegar hefur verið lagður ljósleiðari á Hellu, þrátt fyrir að sveitarstjórn Rangárþings ytra hafi birt auglýsingu þar sem leitað var eftir aðilum sem hefðu áhuga á því að koma að uppbygginu ljósleiðarakerfis. Jafnvel þó að fjarskiptafélög hafi ekki sýnt því áhuga á að koma að uppbyggingu á ljósleiðarakerfi í dreifðari byggðum sveitarfélagsins, þá er eftirspurnin eftir slíkri nettengingu engu minni þar en í þéttbýli.

Þar sem sveitarstjórn Rangárþings ytra telur núverandi ástand á nettengingum í sveitarfélaginu óásættanlegt hefur hún tekið ákvörðun um að ráðast í það verkefni að tengja öll heimili, fyrirtæki og sumarhús í sveitarfélaginu, sem þess óska, við ljósleiðaranet.

Sveitarstjórn Rangárþings ytra telur aðgang íbúa sveitarfélagsins að háhraða nettengingu vera þjónustu sem hefur almenna, efnahagslega þýðingu.

Vegna þessa samþykkir byggðarráð Rangárþings ytra, með vísan til ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar frá 20. desember 2011 um beitingu 2. mgr. 106. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins gagnvart ríkisaðstoð í formi bóta til tiltekinna fyrirtækja sem veita opinbera þjónustu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu (2012/21/ESB), sem tekin var upp í EES-samninginn og aðlöguð að honum með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 66/2012 frá 30. mars 2012, eftirfarandi vegna fyrirhugaðrar lagningar ljósleiðara í sveitarfélaginu:

Fyrirtækið sem sveitarstjórn felur að annast lagningu ljósleiðara í Rangárþingi ytra mun heita Rangárljós. Rangárljós verður rekið sem deild innan sveitarfélagsins og því alfarið á ábyrgð sveitarfélagsins. Sveitarstjórn skal hafa yfirumsjón með Rangárljósi.

Bókhaldi Rangárljóss skal halda aðskildu frá bókhaldi sveitarfélagsins með skýrum hætti. Sveitarstjórn skal fylgjast með rekstri, bókhaldi og fjárhagsstöðu verkefnisins. Í samræmi við góðar reikningsskilavenjur skal fara fram árleg endurskoðun á bókhaldi verkefnisins.

Ljósleiðarakerfið verður alfarið í eigu sveitarfélagsins.

Inntak hinnar opinberu þjónustu sem Rangárljósi er ætlað að framkvæma og veita er að tengja öll heimili, fyrirtæki og sumarhús í sveitarfélaginu, sem svo kjósa og eru ekki þegar tengd, við ljósleiðaranet (FTTH, e. Fiber To The Home) og mun gera öllum íbúum sveitarfélagsins mögulegt að hafa aðgang að háhraða ljósleiðaratengingu a.m.k. næstu 25 árin. Það svæði sem verkefnið tekur til skal vera afmarkað við það svæði innan sveitarfélagsins þar sem ljósleiðari hefur ekki þegar verið lagður.

Engin sérstök réttindi eða einkaréttindi verða veitt vegna verkefnisins.

Rangárljós verður fjármagnað af sveitarfélaginu, þeim tekjum sem af þjónustunni hljótast og með styrk frá íslenska ríkinu. Sveitarstjórn Rangárþings ytra hefur kynnt sér og samþykkir frumhönnun og kostnaðarmat verkefnisins, unnið af Guðmundi Daníelssyni verkefnisstjóra. Þar er lýst fyrirkomulagi á fjármögnun verkefnisins, kostnaðaráætlun, forsendum fyrir útreikningum og hvernig eftirliti með greiðslum verður háttað og endurskoðun á greiðslum vegna verkefnisins.

Samþykkt samhljóða.