Síðasta tengitunnan teiknuð

Nú upplifum við síðustu handtök verksins. Ólíkar aðgerðir sem þó eiga það sameiginleg að vera nauðsynleg skref að settu marki taka nú enda.  Í dag var til dæmis síðasta tengimyndin fullklárið.  Það eru tæplega hundrað og sjötíu tengitunnur í ljósleiðarakerfinu. Tengitunna er einskonar hólkur þar sem ljósleiðarastrengir mætast og eru settir saman.  Eigendur sumarhúsa hafa ekki farið varhluta af umræðu um tengitunnur enda eru þær einmitt staðsettar þar sem heimtaugar taka við af stofnkerfinu.

Hverri og einni tengitunnu tilheyrir tengimynd þar sem skilmerkilega er skráð hvernig hinir fjölmörgu ljósleiðaraþræðir tengjast saman og mynda að lokum kerfi sem við ætlumst til að virki hjá öllum. Fyrir þá sem hafa gaman að tölfræði má geta þess að í 632 spriklandi ljósleiðaraþræðir koma sama í þeirri tengitunnu þar sem flestir ljósleiðaraþræðir mætast.   Tengitunna er á stærð við stóra kaffikönnu (svona pressukönnu eins og flestir þekkja).  Það má því lítið út af bregða í samtengingum á þráðunum.  Verktakarnir okkar sjá til þess og hafa staðið sig með stakri prýði.

Talandi um verktakana okkar. Þá vinna þeir nú hörðum höndum að því að blása strengjum og tengja notendur. Jarðvinna í verkefninu er á lokametrum og við hlökkum til að upplýsa ykkur um næstu áfanga sem verða tilbúnir til þess að panta þjónustu, vonandi á allra næstu dögum. Eins og áður hefur komið fram búum við okkur undir það að áfangi 11 verði næst tilbúinn.

Breyting á skiptingu áfanga

Glöggt áhugafólk um lagningu ljósleiðarans hefur spurst fyrir um það hvort að breyting hafi átt sér stað í áfangaskiptingu verkefnisins og vísar til upplýsinga hér á síðunni frá því 13. október sl. Slíkar fyrirspurnir gleðja okkur mjög og gott til þess að vita að verkefnið njóti aðhalds. Í flestum tilfellum byggja þær vissulega á ótta við að færast aftar í röðina „að fá tengingu“.

Þessar athugasemdir eru réttar, en þó misjafnt hvort viðkomandi hafi færst fram eða aftur. Eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan hefur áföngum 10, 11 og 12 verið endurraðað sé mið tekið af sambærilegri mynd frá því í október. Þessi breyting gerir kerfið enn sveigjanlegra en áður og betur undirbúið fyrir framtíðina. En um leið verðum að hryggja þá sem tilheyrðu áfanga 10 á eldri myndinni að þeir hafa færst aftar í röðina og tilheyra nú áfanga 12. Um leið getum við glatt þá sem tilheyra áfanga 11 því senn líður að því að áfangi 11 verði tilbúinn til tenginga við þjónustuveitur.

Áfangaskipting_6_6_2017Biðin fyrir íbúa í áföngum 10 og 12 verður þó ekki löng. Jarðvinnu er að mestu lokið í áfanga 12 og ef fram fer sem horfir lýkur jarðvinnu í áfanga 10 síðar í vikunni. Verið er að blása ljósleiðara í áfanga 10 og í framhaldi verður haldið í áfanga 12. Áfangi 10 og 12 klárast væntanlega samhliða.

Vinnu við áfanga 8 og 9 er að mestu lokið. Búið er að tengja inni á flestum heimilum og stofnstrengir á löngum köflum tilbúnir. Verktakar fikruðu sig frá Þykkvabæ, við blástur strengja í rör, og náðust á mynd við Rangá fyrir skömmu. Á síðari stigum verkefnis sem þessu fækkar metrum á ljósleiðarakeflum enda er afleitt að sitja uppi með mikinn aukaforða af streng í verklok þar sem Rangárljós stefnir ekki á lagningu annars slíks kerfis í langri framtíð.20170519_154205

Til þess að geta lokið við stofnlögnina frá Ægissíðu að Bjólu vantaði nokkra tugi metra af streng. Strengir sem þessir liggja ekki á lausu á þessum tíma ársins, hvorki hérlendis né erlendis. Við bárum erindið upp við strengjaframleiðanda okkar, Nestor í Finnlandi. Hann sýndi stöðunni fullan skilning og brást við með því að framleiða fyrir okkur streng í snatri og senda til okkar. Strengurinn er því væntanlegur til landsins á næstu dögum. Allur undirbúningur miðar að því að þegar strengurinn kemur til okkar getum við lokið við áfanga 8 og þar með áfanga 9 eins fljótt og kostur er.

Eins og áður upplýsum við ykkur hér á síðunni þegar tilteknir áfangar verða tilbúnir. Búast má við því að áfangi 11 verði tilbúinn næstur, þá áfangar 8 og 9 og lestina reki svo áfangar 10 og 12 nokkrum dögum eftir sumarsólstöður ef fram fer sem horfir.

Rangárljós – Opið hús núna

opidhus2Helstu þjónustuveitur hins nýja ljósleiðara í Rangárþingi ytra eru með opið hús í Miðjunni 2. hæð á Hellu núna (29/4) frá 10-12. Gott tækifæri til að gera samanburð á verði og þjónustu og þess vegna ganga frá samningi.

Opið hús á laugardaginn 29/4 – Miðjunni

ljos1Næsta laugardag, 29 apríl, verður opið hús með þjónustuveitum í Miðjunni (2. hæð) á Hellu milli kl. 10-12. Þar munu helstu þjónustuveitur kynna framboð sitt inn á hið nýja ljósleiðarkerfi Rangárljóss. Sams konar opið hús var haldið fyrir áramót og tókst vel en nú er hugmyndin að endurtaka leikinn fyrir þá sem eru að tengjast þessa dagana eða tiheyra þeim áföngum sem eftir eru af verkefninu en reiknað er með að allir verði orðnir tengdir fyrir júnílok n.k.

Áfangar 6 og 7 – Hagahringurinn

selalaekurFyrr í dag var þjónustuveitum sendur listi yfir tengistaði í áfanga 6 og 7, sem er Hagahringurinn. Verktakarnir okkar eru að leggja lokahönd á áfangana og því ekkert því til fyrirstöðu hjá íbúum sem tilheyra áföngum 6 og 7  að panta sér þjónustu.   Þar með eru áfangar  1,2,3,4,5,6 og 7 í verkefninu tilbúnir og innan þeirra eru 224 heimili, fyrirtæki og sumarhús sem nú eru tengd ljósleiðarakerfi Rangárljóss. Við skríðum þar með inn á síðari helming áfanganna 12 sem verkefnið samanstendur af. Þar með er þó ekki öll sagan sögð.  Jarðvinna í áföngum 8 og 9 er lokið að mestu leiti. Innan áfanga 8 og 9 er m.a. Ægissíða, Bjóla ásamt Þykkvabænum að Háfi.  Blástur á ljósleiðarastrengum er að hefjast í þessum áföngum og í framhaldi frágangur á heimilum í áfanga 8 og 9.  Jarðvinna í áfanga 11 skreið af stað í síðustu viku. Til að rifja upp hvar áfangi 11 liggur má nefna Selalæk, Lambhaga, Oddhól og Odda, Sólvelli að ógleymdum Bakkabæjunum.

Áfangar 3 og 4 eru tilbúnir

afangi3og4Á laugardagskvöldið 25 mars var þjónustuveitum tilkynnt að verktakinn okkar skilar áföngum 3 og 4 til Rangárljóss eftir helgina. Þjónustuveitur hafa því fengið lista yfir þá tengistaði (heimili, fyrirtæki og sumarhús) sem tilheyra þessum áföngum og munu í framhaldi hefja sitt sölustarf á svæðinu.  Til upprifjunar hefst áfangi 3 við Austvaðsholt, fer um Þúfu og nær að Fellsmúla. Áfangi 4 liggur á milli Skarðs og Rjúpnavalla.

Innan áfanga 3 eru tvö svæði sem ekki er lokið að fullu. Það er annarsvegar upp að Hvammi frá Landvegi og hins vegar innan sumarhúsahverfis vestan Tjörfastaða.  Eigendur tengistaða á þessum svæðum þurfa ekki að örvænta. Gildar ástæður eru fyrir þessu og um leið og aðstæður leifa verða þessir tengistaðir tengdir við kerfið.  Hver og einn notandi á nú þegar frátekinn sinn ljósþráð í næsta tengibrunni sem bíður eftir að komast alla leið. Ekki verður beðið með frágang á þessum leiðum degi lengur en við þurfum – óháð stöðu annarra áfanga í verkefninu.

Næstu áfangar sem lokið verður við að tengja við kerfið eru áfangi 6 og 7 (Hagahringurinn).  Verktakar keppast nú við að tengja ljósleiðarastrengi saman í tengibrunnum og ganga frá ljósleiðaraboxum heima hjá notendum.  Fljótlega eftir páska mega notendur innan áfanga 6 og 7 því búast við að geta pantað sér fjarskiptaþjónustu um nýja fjarskiptakerfi Rangárljóss.

Verkfundur 10

ror_ljosFram kom á verkfundi sem haldinn var miðvikudaginn 22. mars að framgangur jarðvinnu er skv. verkáætlun. Jarðvinnu við áfanga 6/7 er lokið og jarðvinna hafin við áfanga 8/9 og er miðað við að henni ljúki í viku 14, þ.e. fyrir páska. Blástur strengja í áfanga 6/7 er á lokastigi, nokkuð á undan áætlun og hefjast tengingar næstu daga. Stefnt er að því að áföngum 6/7 verði lokið að fullu fyrir páska. Næst verður tekinn fyrir áfangi 11 en þar eru neðanverðir Rangárvellir, Oddahverfið og Bakkabæir. Á fundinum kom fram að verktökum hefur tekist að halda áætlun nánast alveg og þótt velvild veðurguða í garð verkefnisins hafi verið mikil í vetur þá eiga verktakar okkar sannarlega hrós skilið fyrir góða frammistöðu við verklegar framkvæmdir. Næsti verkfundur er áætlaður 5. apríl.