Færslusafn fyrir flokkinn: Uncategorized

Opið hús á laugardaginn 29/4 – Miðjunni

ljos1Næsta laugardag, 29 apríl, verður opið hús með þjónustuveitum í Miðjunni (2. hæð) á Hellu milli kl. 10-12. Þar munu helstu þjónustuveitur kynna framboð sitt inn á hið nýja ljósleiðarkerfi Rangárljóss. Sams konar opið hús var haldið fyrir áramót og tókst vel en nú er hugmyndin að endurtaka leikinn fyrir þá sem eru að tengjast þessa dagana eða tiheyra þeim áföngum sem eftir eru af verkefninu en reiknað er með að allir verði orðnir tengdir fyrir júnílok n.k.

Áfangar 6 og 7 – Hagahringurinn

selalaekurFyrr í dag var þjónustuveitum sendur listi yfir tengistaði í áfanga 6 og 7, sem er Hagahringurinn. Verktakarnir okkar eru að leggja lokahönd á áfangana og því ekkert því til fyrirstöðu hjá íbúum sem tilheyra áföngum 6 og 7  að panta sér þjónustu.   Þar með eru áfangar  1,2,3,4,5,6 og 7 í verkefninu tilbúnir og innan þeirra eru 224 heimili, fyrirtæki og sumarhús sem nú eru tengd ljósleiðarakerfi Rangárljóss. Við skríðum þar með inn á síðari helming áfanganna 12 sem verkefnið samanstendur af. Þar með er þó ekki öll sagan sögð.  Jarðvinna í áföngum 8 og 9 er lokið að mestu leiti. Innan áfanga 8 og 9 er m.a. Ægissíða, Bjóla ásamt Þykkvabænum að Háfi.  Blástur á ljósleiðarastrengum er að hefjast í þessum áföngum og í framhaldi frágangur á heimilum í áfanga 8 og 9.  Jarðvinna í áfanga 11 skreið af stað í síðustu viku. Til að rifja upp hvar áfangi 11 liggur má nefna Selalæk, Lambhaga, Oddhól og Odda, Sólvelli að ógleymdum Bakkabæjunum.

Áfangar 3 og 4 eru tilbúnir

afangi3og4Á laugardagskvöldið 25 mars var þjónustuveitum tilkynnt að verktakinn okkar skilar áföngum 3 og 4 til Rangárljóss eftir helgina. Þjónustuveitur hafa því fengið lista yfir þá tengistaði (heimili, fyrirtæki og sumarhús) sem tilheyra þessum áföngum og munu í framhaldi hefja sitt sölustarf á svæðinu.  Til upprifjunar hefst áfangi 3 við Austvaðsholt, fer um Þúfu og nær að Fellsmúla. Áfangi 4 liggur á milli Skarðs og Rjúpnavalla.

Innan áfanga 3 eru tvö svæði sem ekki er lokið að fullu. Það er annarsvegar upp að Hvammi frá Landvegi og hins vegar innan sumarhúsahverfis vestan Tjörfastaða.  Eigendur tengistaða á þessum svæðum þurfa ekki að örvænta. Gildar ástæður eru fyrir þessu og um leið og aðstæður leifa verða þessir tengistaðir tengdir við kerfið.  Hver og einn notandi á nú þegar frátekinn sinn ljósþráð í næsta tengibrunni sem bíður eftir að komast alla leið. Ekki verður beðið með frágang á þessum leiðum degi lengur en við þurfum – óháð stöðu annarra áfanga í verkefninu.

Næstu áfangar sem lokið verður við að tengja við kerfið eru áfangi 6 og 7 (Hagahringurinn).  Verktakar keppast nú við að tengja ljósleiðarastrengi saman í tengibrunnum og ganga frá ljósleiðaraboxum heima hjá notendum.  Fljótlega eftir páska mega notendur innan áfanga 6 og 7 því búast við að geta pantað sér fjarskiptaþjónustu um nýja fjarskiptakerfi Rangárljóss.

Verkfundur 10

ror_ljosFram kom á verkfundi sem haldinn var miðvikudaginn 22. mars að framgangur jarðvinnu er skv. verkáætlun. Jarðvinnu við áfanga 6/7 er lokið og jarðvinna hafin við áfanga 8/9 og er miðað við að henni ljúki í viku 14, þ.e. fyrir páska. Blástur strengja í áfanga 6/7 er á lokastigi, nokkuð á undan áætlun og hefjast tengingar næstu daga. Stefnt er að því að áföngum 6/7 verði lokið að fullu fyrir páska. Næst verður tekinn fyrir áfangi 11 en þar eru neðanverðir Rangárvellir, Oddahverfið og Bakkabæir. Á fundinum kom fram að verktökum hefur tekist að halda áætlun nánast alveg og þótt velvild veðurguða í garð verkefnisins hafi verið mikil í vetur þá eiga verktakar okkar sannarlega hrós skilið fyrir góða frammistöðu við verklegar framkvæmdir. Næsti verkfundur er áætlaður 5. apríl.

 

 

Áfangar 8 og 9 að hefjast

spad_i_spilin_thykkvabaeNú er að hefjast vinna við áfanga 8 og 9 sem er frá Hellu og niður í Þykkvabæ og Þykkvibærinn sjálfur. Upplýsingafundur var haldinn í Íþróttahúsinu í kvöld þar sem farið var yfir málin, skoðaðar lagnaleiðir og farið yfir væntanlega framkvæmd. Guðmundur verkefnisstjóri skýrði einnig út verkefnið í heild sinni og sat fyrir svörum ásamt með Sævari eftirlitsmanni, Ólafi verktaka, Ágústi sveitarstjóra og Bjarna Jóni vatnsveitustjóra. Mikilvægt er að fara vel yfir legu vatnslagna með staðkunnugu heimafólki til að lágmarka hættu á að rjúfa slíkar lagnir fyrir slysni. Margar góðar ábendingar komu fram sem munu nýtast vel og liðka fyrir að verkið gangi hratt og örugglega fyrir sig. Fólk er minnt á að hafa endilega samband við starfsmenn verkefnisins með spurningar og hvaðeina sem að gagni getur komið. Upplýsingar um símanúmer og tölvupósta má finna hér á síðunni undir  Starfsmenn.

Öskudagur

Snemma í morgun var öllum þjónustuveitum sendur listi yfir fleiri notendur sem geta nú pantað sér þjónustu um nýja ljósleiðarakerfið.  Áfangi 5 er að fullu frágenginn og það styttist í að áfangi 2 verði klár. Til að rifja upp hvaða tengistaðir tilheyra þessum áföngum þá hefst áfangi 5 við Snjallsteinshöfða, þverar Ytri Rangá á móts við Geldingalæk og sem leið liggur fram hjá Kaldbak og Húsagaði og endar annarsvegar við Selsund og hinsvegar við Hóla og Næfurholt.  Þjónustuveitur hafa sem sagt verið upplýstar um að þessi áfangi sé tilbúinn.

verkfundur-8

Verkefnisstjóri og verktakar fara yfir málin

Við vonumst til þess að áfangi 2 verði tilbúinn fyrir lok vikunnar.  Áfangi 2 liggur frá Árbæjarvegi meðfram þjóðvegi 1 um Rauðalæk að Meiri-Tungu. Ásamýri og Þjóðólfshagi tilheyra áfanga 2 ásamt Arnkötlustöðum og Sandhólaferju.  Þjónustuveitum hefur verið sendur listi yfir notendur innan áfanga 2. Íbúar innan áfangans geta því sett sig í stellingar og hafist handa við óska eftir tilboðum í þjónustu og velja á milli þeirra kostaboða sem bjóðast.

Þrír áfangar af tólf eru þar með tilbúinir og á annað hundrað heimili, fyrirtæki og sumarhús tengst ljósleiðarakerfinu.  Nú er unnið að tengingu á ljósleiðarastrengjum í áfanga 3 og 4 (Austvaðsholt – Rjúpnavellir) og jarðvinna á Hagahringnum er á lokametrunum (áfangi 6 og 7).  Óhætt er að hrósa verktökunum okkar enda leggja þeir sig fram við að standa við tímasetningar í verkáætluninni og það gengur vel. Birtan sem fylgir snjónum lengir daginn og léttir lundina. Samkvæmt verkáætluninni verða áfangi 3 og 4 að fullu frágengnir upp úr miðjum mars og áfangi 6 og 7 um miðjan apríl.

Ritað með ráðherra

undirritun-rangarljos-2017-styrkur-2

f.v. Haraldur Benediktsson formaður fjarskiptasjóðs, Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Ágúst frá Rangárljósi

Í dag var skrifað undir samning milli ríkisins og Rangárljóss vegna styrkúthlutunar úr Fjarskiptasjóði í verkefninu Ísland ljóstengt 2017. Rangárþing ytra bauð í styrk í fyrstu úthlutuninni árið 2016 með ágætum árangri og aftur núna og hefur þá samtals fengið úthlutað 135 m. til verkefnisins. Þetta er ánægjuleg niðurstaða og léttir svo sannarlega undir við að klára þetta gríðarlega mikilvæga verkefni fyrir dreifbýli sveitarfélagsins.

Fyrstu tengingarnar komnar á

ljos1

Ljósið farið að virka í Fagurhól

ljos2Heimilin í áfanga 1 tengjast nú hvert af öðru. Fyrstu húsin tengdust í gær og það var tekið á móti tæknimönnum frá TRS með pompi og prakt og jafnvel rjómapönnukökum í tilefni dagsins. Það voru húsráðendur í Fagurhól sem riðu á vaðið og voru fyrst til að tengjast. „Allt virkar eins og það á að gera og internet og sjónvarpsefni berst nú með ljóshraða – þvílík framför“ segir Bjarnleifur bóndi og er ánægður með þennan mikilvæga áfanga í að bæta búsetugæði í sveitarfélaginu.

 

Verkefni Rangárljóss gengur líka á góðum hraða og er nú unnið af krafti við jarðvinnu og íblástur næstu áfanga. Næsti verkfundur hjá Rangárljósi er áætlaður á miðvikdaginn 22. febrúar þ.e. í næstu viku. Eins og venja er þá verður fundargerðin birt hér á síðunni í kjölfarið til upplýsingar.

Sjöunda vika ársins 2017

Verktakinn okkar hefur nú skilað af sér mælingum sem gefa til kynna að áfangi 1 uppfylli þau gæði sem við förum fram á.  Vika 7 árið 2017 markar þar með þau tímamót að nokkur fjöldi íbúa í dreifðri byggð í Rangárþingi ytra geta tengst ljósleiðarakerfi Rangárljóss.  Töluverður fjöldi notenda hefur pantað sér þjónustu nú þegar hjá þjónustuveitum.

Guðmundur Daníelsson verkefnisstjóri Rangárljóss rifjar hér aðeins upp ferlið:gudmundur-talar

  1. Verktaki lýkur vinnu við tiltekinn áfanga, áfanga 1 í þessu tilfelli. Hann skilar af sér nákvæmum mælinganiðurstöðum sem sýna fram á að allt sé eins og ætlast er til.
  2. Rangárljós sendir þjónustuveitum lista yfir þá notendur sem tilheyra viðkomandi áfanga og gefur grænt ljós á það að þeir notendur sem tilheyra áfanganum geti pantað sér þjónustu.
  3. Þjónustuveitur skrá viðkomandi notendur í sína gagnagrunna og undirbúa sitt sölufólk undir að taka á móti pöntuum.
  4. Eftir að þessi þrjú skref eru klár er sem sagt allt tilbúið. Þ.e. þá er ljósleiðarakerfið tilbúið og þjónustuveiturnar tilbúnar til að taka á móti pöntunum.
  5. Íbúi pantar sér þjónustu hjá þjónustuveitu, hvort sem það er heimasíma-, internet- eða sjónvarpsþjónusta. Gengur frá samningi þess efnis við viðkomandi þjónustuveitu.
  6. Þjónustuveitan upplýsir Rangárljós um að viðkomandi notandi sé nú viðskiptavinur þeirra og óskar eftir afnot af ljósþræðinum sem nú hefur verið lagður heim til notandans.
  7. Rangárljós tengir þann þráð við búnað þjónustuveitunnar og upplýsir hana um það þegar sú tenging er komin á.
  8. Þjónustuveitan sendir tæknimann til notandans sem setur upp endabúnað og sér til þess að allt virki eins og til er ætlast heima hjá notandanum.

Hvers vegna þessi röð aðgerða ?  Jú, hún tryggir það eins og kostur er að þegar komið er að því að tæknimaður mæti heim til ykkar, þá sé allt annað klárt.  Þ.e. að þið íbúar séuð ekki skildir eftir í lausu lofti, tæknimaður farinn og allt virki „næstum því“, eða bara þegar….eitthvað annað á að gerast. Við stillum röð aðgerða sem sagt upp á þann veg að miklar líkur séu á því að þegar tæknimaður klárar sitt verk sé verkinu raunverulega lokið að fullu.

Við erum sem sagt komin á skref 5-6-7 í áfanga 1.  Þ.e. notendur geta nú pantað sér þjónustu, eða hafa gert það nú þegar.  Allir notendur sem nú þegar hafa pantað sér þjónustu eru komnir á skref 8.  Þ.e. Rangárljós hefur tengt alla ljósþræði í tengimijðum kerfisins sem okkur hafa borist upplýsingar um frá þjónustuveitum.  Þeir notendur sem hafa nú þegar pantað sér þjónustu eiga því von á heimsókn frá tæknimanni sinnar þjónustuveitu á næstu dögum.