Færslusafn eftir: AS

Verklokum fagnað

rangarljos-verklok-3

Ágúst Sigurðsson færði lykilaðilum í verkefninu þakklætisvott. F.v. Ágúst Sigurðsson – sveitarstjóri Rangárþings ytra, Sævar Eiríksson – eftirlitsmaður Rangárljósa, Ólafur Einarsson – eigandi Þjótanda ehf, Gunnar Bragi Þorsteinsson – framkvæmdarstjóri TRS, Haraldur Benediktsson – þingmaður sjálfstæðisflokksins og hvatamaður Íslands ljóstengd, Guðmundur Daníelsson verkefnisstjóri Rangárljósa og Páll Jóhann Pálsson f.v. þingmaður Framsóknarflokksins og hvatamaður Ísland ljóstengt.

Það var mikil gleði ríkjandi í Rangárþingi ytra sl. föstudag þann 19 ágúst þegar síðasti bærinn var tengdur í ljósleiðaraverkefni sveitarfélagsins. Framgangur verksins hefur verið með ólíkindum góður en verktakar hófu störf þann 26. september í fyrra og unnið hefur verið hvern nýtan dag og verkinu nú lokið. Verkefnið er það stærsta sinnar tegundar hérlendis fram til þessa enda víðfeðmt sveitarfélag og nánast 100 % þátttaka auk þess sem fjöldi sumarhúsa voru einnig tengd. Sveitarstjórn og starfsfólk sveitarfélagsins Rangárþings ytra fögnuðu verklokum með starfsmönnum verktakans Þjótanda og undirverktakans TRS í Menningarhúsinu á Hellu þar sem stiklað var á stóru yfir helstu áfanga á framkvæmdatímanum, ávörp flutt og glaðst yfir góðu verki.

Síðasti bærinn tengdur

Hvammur_tengdur_3

Það var kátt yfir ýtustjóranum okkar, Haraldi Magnússyni, þegar hann renndi með ljósleiðarann í hlaðið á Hvammi á Landi. Með því er þessu mikla og mikilvæga verkefni lokið en það hófst þann 26. september í fyrra þegar haldið var af stað frá Næfurholti á Rangárvöllum. Verkið hefur gengið frábærlega vel enda valinn maður í hverju rúmi. Halli sá ástæðu til að opna eina „Pepsi Max“ í tilefni dagsins.

Áfangar 10 og 12

Þjónustuveitum hefur verið sendur listi yfir þau hús sem tilheyra áföngum 10 og 12. Þar með eiga þjónustuveitur að hafa upplýsingar um alla tengda staði sem tilheyra ljósleiðarakerfi Rangárljóss.
Ef misbrestur er á því að þjónustuveitur kannist við að hafa upplýsingar um tiltekin hús innan kerfisins þrátt fyrir að óskað hafi verið eftir ljósleiðara, nú eða ef frágangur á ljósleiðara er ekki lokið á tilteknum tengistöðum biðjum við viðkomandi að hafa samband, annað hvort í síma 863 4106 (Guðmundur) eða með tölvupósti á netfangið gudmundur@snerra.com .

Áfangar 10. 11 og 12

Þjónustuveitum hefur verið sendur listi yfir tengistaði í áfanga 11. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að þeir sem tilheyra þeim áfanga geti pantað sér fjarskiptaþjónustu. Einnig hefur okkur borist skilaboð frá verktakanum okkar að áfangar 10 og 12 verði klárir á næstu dögum. Við vonum svo sannarlega að þessum tveimur áföngum verði skilað til okkar fyrir helgina og margt sem bendir til þess. Íbúar innan þessa áfanga geta því búið sig undir það að panta sér þjónustu og í framhaldi fá heimsókn frá fulltrúa þeirrar þjónustuveitu sem varð fyrir valinu hjá hverjum og einum.

 

Tengingar í áfanga 9

Eigendur tengistaða í áfanga 9 geta nú pantað sé fjarskiptaþjónustu. Verktakar okkar hafa nú lagfært þá ljósleiðaraþræði sem reyndust undir okkar gæðaviðmiðum og tilheyra áfanga 9. Þjónustuveitur hafa því móttekið staðfestan lista yfir tengistaði sem tilheyra áfanganum.   Til upprifjunar afmarkast áfangi 9 af Borg í austur og Háfi í vestur. Þar með er öllum áföngum vestan Ytri-Rangá lokið að ógleymdum fyrsta áfanga verkefnisins sem náði frá Næfurholti að Geldingalæk. Mælingar úr áfanga 11 berast okkur á allra næstu dögum. Íbúar á því svæði, sem tilheyra áfanga 11, geta því undirbúið sig undir það að panta sér fjarskiptaþjónustu.

 

 

Áfangi 8 tilbúinn

Í gær var þjónustuveitum sendur staðfestur listi yfir tengistaði sem tilheyra áfanga 8. Áfangi átt nær frá Hellu, um Ægissíðu og að Þykkvabæ.  Heimili og aðrir tengistaðir á þessari leið geta því pantað sér fjarskiptaþjónustu.  Búið er að framkvæma mælingar á ljósleiðaraþráðum í áfanga 9.  Nokkrar samsetningar á ljósþráðum reyndust ekki innan þeirra gæðaviðmiða sem við gerum og því þarf að laga þær.  Unnið er nú hörðum höndum að lagfæringum og ef fram fer sem horfir verður áfangi 9 tilbúinn til tenginga síðar í þessari viku.

Ef allt gengur eftir skilar verktakinn okkur mælingum fyrir áfanga 10, 11 og 12 fyrir lok næstu viku. Við uppfærum upplýsingar hér á síðunni jafnharðan.

 

Síðasta tengitunnan teiknuð

Nú upplifum við síðustu handtök verksins. Ólíkar aðgerðir sem þó eiga það sameiginleg að vera nauðsynleg skref að settu marki taka nú enda.  Í dag var til dæmis síðasta tengimyndin fullklárið.  Það eru tæplega hundrað og sjötíu tengitunnur í ljósleiðarakerfinu. Tengitunna er einskonar hólkur þar sem ljósleiðarastrengir mætast og eru settir saman.  Eigendur sumarhúsa hafa ekki farið varhluta af umræðu um tengitunnur enda eru þær einmitt staðsettar þar sem heimtaugar taka við af stofnkerfinu.

Hverri og einni tengitunnu tilheyrir tengimynd þar sem skilmerkilega er skráð hvernig hinir fjölmörgu ljósleiðaraþræðir tengjast saman og mynda að lokum kerfi sem við ætlumst til að virki hjá öllum. Fyrir þá sem hafa gaman að tölfræði má geta þess að í 632 spriklandi ljósleiðaraþræðir koma sama í þeirri tengitunnu þar sem flestir ljósleiðaraþræðir mætast.   Tengitunna er á stærð við stóra kaffikönnu (svona pressukönnu eins og flestir þekkja).  Það má því lítið út af bregða í samtengingum á þráðunum.  Verktakarnir okkar sjá til þess og hafa staðið sig með stakri prýði.

Talandi um verktakana okkar. Þá vinna þeir nú hörðum höndum að því að blása strengjum og tengja notendur. Jarðvinna í verkefninu er á lokametrum og við hlökkum til að upplýsa ykkur um næstu áfanga sem verða tilbúnir til þess að panta þjónustu, vonandi á allra næstu dögum. Eins og áður hefur komið fram búum við okkur undir það að áfangi 11 verði næst tilbúinn.