Breyting á skiptingu áfanga

Glöggt áhugafólk um lagningu ljósleiðarans hefur spurst fyrir um það hvort að breyting hafi átt sér stað í áfangaskiptingu verkefnisins og vísar til upplýsinga hér á síðunni frá því 13. október sl. Slíkar fyrirspurnir gleðja okkur mjög og gott til þess að vita að verkefnið njóti aðhalds. Í flestum tilfellum byggja þær vissulega á ótta við að færast aftar í röðina „að fá tengingu“.

Þessar athugasemdir eru réttar, en þó misjafnt hvort viðkomandi hafi færst fram eða aftur. Eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan hefur áföngum 10, 11 og 12 verið endurraðað sé mið tekið af sambærilegri mynd frá því í október. Þessi breyting gerir kerfið enn sveigjanlegra en áður og betur undirbúið fyrir framtíðina. En um leið verðum að hryggja þá sem tilheyrðu áfanga 10 á eldri myndinni að þeir hafa færst aftar í röðina og tilheyra nú áfanga 12. Um leið getum við glatt þá sem tilheyra áfanga 11 því senn líður að því að áfangi 11 verði tilbúinn til tenginga við þjónustuveitur.

Áfangaskipting_6_6_2017Biðin fyrir íbúa í áföngum 10 og 12 verður þó ekki löng. Jarðvinnu er að mestu lokið í áfanga 12 og ef fram fer sem horfir lýkur jarðvinnu í áfanga 10 síðar í vikunni. Verið er að blása ljósleiðara í áfanga 10 og í framhaldi verður haldið í áfanga 12. Áfangi 10 og 12 klárast væntanlega samhliða.

Vinnu við áfanga 8 og 9 er að mestu lokið. Búið er að tengja inni á flestum heimilum og stofnstrengir á löngum köflum tilbúnir. Verktakar fikruðu sig frá Þykkvabæ, við blástur strengja í rör, og náðust á mynd við Rangá fyrir skömmu. Á síðari stigum verkefnis sem þessu fækkar metrum á ljósleiðarakeflum enda er afleitt að sitja uppi með mikinn aukaforða af streng í verklok þar sem Rangárljós stefnir ekki á lagningu annars slíks kerfis í langri framtíð.20170519_154205

Til þess að geta lokið við stofnlögnina frá Ægissíðu að Bjólu vantaði nokkra tugi metra af streng. Strengir sem þessir liggja ekki á lausu á þessum tíma ársins, hvorki hérlendis né erlendis. Við bárum erindið upp við strengjaframleiðanda okkar, Nestor í Finnlandi. Hann sýndi stöðunni fullan skilning og brást við með því að framleiða fyrir okkur streng í snatri og senda til okkar. Strengurinn er því væntanlegur til landsins á næstu dögum. Allur undirbúningur miðar að því að þegar strengurinn kemur til okkar getum við lokið við áfanga 8 og þar með áfanga 9 eins fljótt og kostur er.

Eins og áður upplýsum við ykkur hér á síðunni þegar tilteknir áfangar verða tilbúnir. Búast má við því að áfangi 11 verði tilbúinn næstur, þá áfangar 8 og 9 og lestina reki svo áfangar 10 og 12 nokkrum dögum eftir sumarsólstöður ef fram fer sem horfir.