Áfangar 3 og 4 eru tilbúnir

afangi3og4Á laugardagskvöldið 25 mars var þjónustuveitum tilkynnt að verktakinn okkar skilar áföngum 3 og 4 til Rangárljóss eftir helgina. Þjónustuveitur hafa því fengið lista yfir þá tengistaði (heimili, fyrirtæki og sumarhús) sem tilheyra þessum áföngum og munu í framhaldi hefja sitt sölustarf á svæðinu.  Til upprifjunar hefst áfangi 3 við Austvaðsholt, fer um Þúfu og nær að Fellsmúla. Áfangi 4 liggur á milli Skarðs og Rjúpnavalla.

Innan áfanga 3 eru tvö svæði sem ekki er lokið að fullu. Það er annarsvegar upp að Hvammi frá Landvegi og hins vegar innan sumarhúsahverfis vestan Tjörfastaða.  Eigendur tengistaða á þessum svæðum þurfa ekki að örvænta. Gildar ástæður eru fyrir þessu og um leið og aðstæður leifa verða þessir tengistaðir tengdir við kerfið.  Hver og einn notandi á nú þegar frátekinn sinn ljósþráð í næsta tengibrunni sem bíður eftir að komast alla leið. Ekki verður beðið með frágang á þessum leiðum degi lengur en við þurfum – óháð stöðu annarra áfanga í verkefninu.

Næstu áfangar sem lokið verður við að tengja við kerfið eru áfangi 6 og 7 (Hagahringurinn).  Verktakar keppast nú við að tengja ljósleiðarastrengi saman í tengibrunnum og ganga frá ljósleiðaraboxum heima hjá notendum.  Fljótlega eftir páska mega notendur innan áfanga 6 og 7 því búast við að geta pantað sér fjarskiptaþjónustu um nýja fjarskiptakerfi Rangárljóss.