Öskudagur

Snemma í morgun var öllum þjónustuveitum sendur listi yfir fleiri notendur sem geta nú pantað sér þjónustu um nýja ljósleiðarakerfið.  Áfangi 5 er að fullu frágenginn og það styttist í að áfangi 2 verði klár. Til að rifja upp hvaða tengistaðir tilheyra þessum áföngum þá hefst áfangi 5 við Snjallsteinshöfða, þverar Ytri Rangá á móts við Geldingalæk og sem leið liggur fram hjá Kaldbak og Húsagaði og endar annarsvegar við Selsund og hinsvegar við Hóla og Næfurholt.  Þjónustuveitur hafa sem sagt verið upplýstar um að þessi áfangi sé tilbúinn.

verkfundur-8

Verkefnisstjóri og verktakar fara yfir málin

Við vonumst til þess að áfangi 2 verði tilbúinn fyrir lok vikunnar.  Áfangi 2 liggur frá Árbæjarvegi meðfram þjóðvegi 1 um Rauðalæk að Meiri-Tungu. Ásamýri og Þjóðólfshagi tilheyra áfanga 2 ásamt Arnkötlustöðum og Sandhólaferju.  Þjónustuveitum hefur verið sendur listi yfir notendur innan áfanga 2. Íbúar innan áfangans geta því sett sig í stellingar og hafist handa við óska eftir tilboðum í þjónustu og velja á milli þeirra kostaboða sem bjóðast.

Þrír áfangar af tólf eru þar með tilbúinir og á annað hundrað heimili, fyrirtæki og sumarhús tengst ljósleiðarakerfinu.  Nú er unnið að tengingu á ljósleiðarastrengjum í áfanga 3 og 4 (Austvaðsholt – Rjúpnavellir) og jarðvinna á Hagahringnum er á lokametrunum (áfangi 6 og 7).  Óhætt er að hrósa verktökunum okkar enda leggja þeir sig fram við að standa við tímasetningar í verkáætluninni og það gengur vel. Birtan sem fylgir snjónum lengir daginn og léttir lundina. Samkvæmt verkáætluninni verða áfangi 3 og 4 að fullu frágengnir upp úr miðjum mars og áfangi 6 og 7 um miðjan apríl.