Sjöunda vika ársins 2017

Verktakinn okkar hefur nú skilað af sér mælingum sem gefa til kynna að áfangi 1 uppfylli þau gæði sem við förum fram á.  Vika 7 árið 2017 markar þar með þau tímamót að nokkur fjöldi íbúa í dreifðri byggð í Rangárþingi ytra geta tengst ljósleiðarakerfi Rangárljóss.  Töluverður fjöldi notenda hefur pantað sér þjónustu nú þegar hjá þjónustuveitum.

Guðmundur Daníelsson verkefnisstjóri Rangárljóss rifjar hér aðeins upp ferlið:gudmundur-talar

  1. Verktaki lýkur vinnu við tiltekinn áfanga, áfanga 1 í þessu tilfelli. Hann skilar af sér nákvæmum mælinganiðurstöðum sem sýna fram á að allt sé eins og ætlast er til.
  2. Rangárljós sendir þjónustuveitum lista yfir þá notendur sem tilheyra viðkomandi áfanga og gefur grænt ljós á það að þeir notendur sem tilheyra áfanganum geti pantað sér þjónustu.
  3. Þjónustuveitur skrá viðkomandi notendur í sína gagnagrunna og undirbúa sitt sölufólk undir að taka á móti pöntuum.
  4. Eftir að þessi þrjú skref eru klár er sem sagt allt tilbúið. Þ.e. þá er ljósleiðarakerfið tilbúið og þjónustuveiturnar tilbúnar til að taka á móti pöntunum.
  5. Íbúi pantar sér þjónustu hjá þjónustuveitu, hvort sem það er heimasíma-, internet- eða sjónvarpsþjónusta. Gengur frá samningi þess efnis við viðkomandi þjónustuveitu.
  6. Þjónustuveitan upplýsir Rangárljós um að viðkomandi notandi sé nú viðskiptavinur þeirra og óskar eftir afnot af ljósþræðinum sem nú hefur verið lagður heim til notandans.
  7. Rangárljós tengir þann þráð við búnað þjónustuveitunnar og upplýsir hana um það þegar sú tenging er komin á.
  8. Þjónustuveitan sendir tæknimann til notandans sem setur upp endabúnað og sér til þess að allt virki eins og til er ætlast heima hjá notandanum.

Hvers vegna þessi röð aðgerða ?  Jú, hún tryggir það eins og kostur er að þegar komið er að því að tæknimaður mæti heim til ykkar, þá sé allt annað klárt.  Þ.e. að þið íbúar séuð ekki skildir eftir í lausu lofti, tæknimaður farinn og allt virki „næstum því“, eða bara þegar….eitthvað annað á að gerast. Við stillum röð aðgerða sem sagt upp á þann veg að miklar líkur séu á því að þegar tæknimaður klárar sitt verk sé verkinu raunverulega lokið að fullu.

Við erum sem sagt komin á skref 5-6-7 í áfanga 1.  Þ.e. notendur geta nú pantað sér þjónustu, eða hafa gert það nú þegar.  Allir notendur sem nú þegar hafa pantað sér þjónustu eru komnir á skref 8.  Þ.e. Rangárljós hefur tengt alla ljósþræði í tengimijðum kerfisins sem okkur hafa borist upplýsingar um frá þjónustuveitum.  Þeir notendur sem hafa nú þegar pantað sér þjónustu eiga því von á heimsókn frá tæknimanni sinnar þjónustuveitu á næstu dögum.