„Kominn tími til að tengja“

Þessa dagana fer fram lokaprófun á ljósleiðaraþráðum í áfanga 1. Það ríkir eftirvænting, enda styttist í að fyrstu notendur hjá Rangárljósi tengist ljósleiðaranum og fái að kynnast gæðum hans. Verkáfangi 1 er því svo gott sem tilbúinn til notkunar, spurning um nokkra daga.  Þjónustuveitum hefur verið sendur listi yfir þá notendur sem tilheyra áfanganum og hafa því hafið sölu og markaðsstarf sitt.

fr_3

Tengja – tengja

Mælingar á ljósleiðaraþráðum gegna mjög mikilvægu hlutverki. Þær eru sú gæðatrygging sem við sem að verkefninu stöndum og íbúar og notendur kerfisins fáum í hendur frá verktaka til að sannreyna að hver einasti ljósþráður í kerfinu sé eins og hann á að vera.  Mælingar eru einnig mikilvægar fyrir fjarskiptafélögin sem selja þjónustu sína yfir kerfið.  Þau félög treysta á það að kerfið uppfylli þær gæðakröfur sem til er ætlast svo að þau geti veitt notendum sína þjónustu hnökralaust.  Mælingar sýna að samsetningar séu í lagi og að hver þráður geti sinnt sínu hlutverki.

Við gerum miklar kröfur til gæða í kerfinu. Hver ljósþráður á ekki einungis að þjóna þörfum samtímans. Hann á einnig að vera í stakk búinn til þess að þjóna kröfum framtíðarinnar um aukinn gagnahraða og aukna þjónustu.  Mælingarnar berast okkur á næstu dögum. Eftir að þær hafa verið yfirfarnar hefjumst við handa við að tengja upp notendur. Markmiðið okkar er að eftir að kerfið er komið í jörð þjóni það tilgangi sínum í áratugi því „Vanda skal það sem lengi á að standa“