Takk fyrir hlýjar móttökur á vetrardegi

fr_3

Ljósleiðari bræddur saman

Senn líður að því að notendur í áfanga eitt geti pantað þjónustu yfir ljósleiðarann.  Búið er að ganga frá tengiboxum heima hjá tugum notenda og frágangur á ljósþráðum í stofnkerfinu í fullum gangi. Í síðustu viku var unnið við frágang í tengimiðjunni á Hellu og í tengibílum verktaka á vettvangi er ljósleiðaragler brætt saman, þráð fyrir þráð í tengiboxum sem að lokum fara inn í tengiskápa eða brunna víðsvegar um sveitarfélagið. Ljósleiðarastrengir í kerfinu hafa allt að 288 ljósþræði. Þræðirnir rúmast í streng sem er um 10mm í þvermál.  Það segir nokkra sögu um þvermál hvers ljósþráðar fyrir sig. Eins og áður hefur komið fram liggur þráður frá hverju heimili rakleiðis inn í tengimiðjur kerfisins.  Fyrir þá sem hafa áhuga á tækninni er rétt að minnast á að slík samsetning á ljósþræði er mikil nákvæmnisvinna og má líkja við rafsuðu, enda ljósbogi sem bræðir glerið saman.  Vandinn liggur í því að ljósleiðari er 125µm í þvermál. Það segir hinsvegar ekki alla söguna því að kjarni þráðarins, sem gegnir veigamesta hlutverki í hnökralausum flutning fjarskiptagagna, er ekki nema um 9µm í þvermál.

Til þess að tryggja að allar samsetningar á ljósleiðaranum hafi tekist vel á leiðinni frá heimili inn í tengimiðjurnar á Hellu og Laugalandi fara fram nákvæmar mælingar á hverjum þræði fyrir sig eftir að öll leiðin hefur verið tengd saman. Þetta er ástæðan fyrir því að nokkur tími getur liðið frá því að tengibox er tilbúið á heimili þar til að hægt er að panta þjónustu um leiðarann.  Eftir að þið fáið heimsókn, þar sem leiðarinn er mældur, er hinsvegar farið að styttast verulega í að stóra stundin renni upp.  Við munum láta ykkur vita um leið og hægt er að panta þjónustu.

Eins og áður hefur komið fram eru svör við mörgum spurningum að finna inni á Spurt og svarað hér á síðunni. Við erum þakklát fyrir allar ábendingar og spurningar og hvetjum ykkur til að hafa samband við starfsfólk verkefnisins ef spurningar vakna. Upplýsingar um tengiliði er að finna undir „Starfsmenn“.

Þrátt fyrir að veturinn hafi minnt á sig er unnið hörðum höndum. Á verkfundi sem haldinn var miðvikudaginn 21. desember var engan bilbug að finna á verktakanum okkar og unnið verður samhliða við lagningu röra, blástur strengja og frágang inni á heimilum. Á fundinum komu fram þakkir til íbúa fyrir jákvætt viðmót gagnvart verktökum og öðru starfsfólki verkefnisins. Það léttir mönnum lífið og gerir vinnuna ánægjulegri.

Um leið og við þökkum fyrir hlýlegar móttökur og jákvætt viðhorf gagnvart verkefninu viljum við nota tækifærið og óska ykkur öllum gleðilegra jóla.

Rangárljóss teymið